Bjarnarhýðið

Heimsmeistarakeppni Bjössa 2006

Allir leikir. Eða ekki.

laugardagur, júní 10, 2006

Langur laugardagur

Margir Íslendingar halda með Englendingum. Ég hef ekki haldið með þeim að ráði síðan 1982. Síður, ef eitthvað er. Nú er spurning hvort þeir séu allt einu komnir með lið sem getur gert hlutina, þó að besta manninn vanti. Riðlakeppnin á ekki að skapa þeim vandræði. Þá eru það leikir dagsins
England - Paragvæ

Enginn Rooney, Gerrard í veseni og Jermaine Jenas sást á miðri miðjunni á æfingu. Þrátt fyrir sterk nöfn má ekki mikið útaf bregða hjá Englandi. Stærsta spurningin er sú: Geta Gerrard og Lampard spilað saman á miðjunnni þannig að vel sé. Hingað til hefur svarið verið nei.
Paragvæ á ekki að vera hindrun á pappírnum. Vörnin er reynslumikil, en besti maðurinn Gamarra er 35 ára og ef Owen er frískur á hann að geta tekið Gamarra á sprettinum. Gaman að sjá í Sport blaðinu um HM að miðja Paragvæa "stundar viðskipti með lið í Bundesliga" en raunin er auðvitað sú að þeir Dos Santos og Barreto "do their business with" Bayern og Nijmegen (sem er að auki í Hollandi)
Vörn Englendinga á að vera pottþétt, jafnvel gegn Bayern framherjanum Roque Santa Cruz. Reyndar er alls óvíst hvort hann verður með vegna meiðsla í hásin.
England - Paragvæ 2-0
Lykilmenn: Lampard og Santa Cruz.
Spútnik: Kemur Walcott inn á? Næst yngstur á HM ef svo verður, Norman Whiteside mun enn eiga metið sitt óhreyft á þessari HM.

Svíþjóð - Trínídad og Tóbagó

Það verða mjög óvænt úrslit ef T&T fara heim með stig. Þeir eru komnir til að hafa gaman að þessu. Svíar eiga að vinna þennan leik, skilyrðislaust. Það eru reyndar ákveðin spurningamerki við vörnina og Isaksson markvörður er meiddur, en það er erfitt að vanmeta andlega styrkinn. Hjá Trínídad er Stern John markaskorarinn, 65 mörk í 95 landsleikjum. Það er varla hægt annað en að velta fyrir sér styrkleika andstæðinganna sem hann hefur skorað gegn.
Svíþjóð - Trínídad og Tóbagó 0-1
Lykilmenn: Ibrahimovic og John
Spútnik: Dwight Yorke. nei segi bara svona...

Argentína - Fílabeinsströndin

Mest spennandi leikur dagsins. Fyrsti leikurinn í dauðariðlinum (hverju svo sem Bandaríkjamenn halda fram) og setur tóninn fyrir þann riðil. Hér nægir að telja upp nöfn: Chelsea senterarnir Crespo og Drogba mætast, Messi er enn meiddur en gæti orðið einn af stórstjörnunum, Riquelme og Mascherano hava alla burði til að slá í gegn sem sóknar- og varnarmiðjumenn. Hálf Arsenal vörnin sem við vitum allt um er mætt á svæðið. Carlos Tévez er besti framherjinn í brasilísku deildinni þó hann hafi aðeins skorað 3 mörk í 21 landsleik og besti leikmaður Manchester United á leiktíðinni 2004-5 er stiginn upp úr meiðslum, járnkarlinn Heinze tæklar allt sem hreyfist og ljósastaura að auki ef sá gállinn er á honum. Colocchini, Sorin og Ayala eru engir aukvisar heldur. Veikustu hlekkirnir á vellinum er markvörður Fílanna, Tizié og litli vinstri bakvörðurinn Boka. Fyrsti risaleikurinn í HM. Það verður allt vitlaust...
Argentína - Fílabeinsströndin 2-1
Lykilmenn: Riquelme og Drogba
Spútnik: Tevez