Bjarnarhýðið

Heimsmeistarakeppni Bjössa 2006

Allir leikir. Eða ekki.

laugardagur, júní 10, 2006

Whúha.

Fyrsta smellrétta spáin dottin inn. Ekki nóg með það heldur voru lykilmennirnir líka bestu mennirnir í sínum liðum, Riquelme maður leiksins. (minnstu ekki á Tevez, takk) Besti leikurinn af þessum fimm og góður endir á deginum eins og var viðbúið. Ekki spurning að Fílarnir segja þessa varamenn sína í byrjunarlið næst, í það minnsta Dindane. Báðar þjóðir voru að spila mjög vel og skemmtilega. Fílabeinsströndin er kannske með eilítið veikari liðsheild og Argentína er með nokkra menn sem geta unnið leik uppá eigin spýtur og það kom vel í ljós. Vel dæmt, boltinn fór ekki yfir línuna, Saviola var ekki rangstæður en svo var rangstæða rétt dæmd í seinni hálfleik.
Flottur leikur í alla staði.

Ja hérna hér.

Þetta var óvænt. Ég hélt að þetta yrði kannske ekki rústun, en þetta var svakalegt. Hislop kemur inn fimm mínútum fyrir leik og á stórleik. Svíarnir voru ekki sannfærandi, spiluðu ekki nógu vel saman.

Afskaplega ósannfærandi.

Englendingar voru mjög ósannfærandi í þessum leik, vantaði allt bit í sóknina og í seinni hálfleiknum voru þeir næstum á hælunum. 11. leikurinn í röð í HM sem þeir skora ekki í seinni hálfleik. Þeir þurfa að gera miklu betur ef þeir eiga að gera rósir í þessari keppni. Svíar verða erfiðari andstæðingar.

England í hálfleik.

Ekki er þetta mjög sannfærandi inni í teignum hjá Englandi. Þeir eiga allt spilið, fá að mestu að vera í friði með það, en vantar bit. Held að Svíar séu ekki of stressaðir við að horfa á þetta

Langur laugardagur

Margir Íslendingar halda með Englendingum. Ég hef ekki haldið með þeim að ráði síðan 1982. Síður, ef eitthvað er. Nú er spurning hvort þeir séu allt einu komnir með lið sem getur gert hlutina, þó að besta manninn vanti. Riðlakeppnin á ekki að skapa þeim vandræði. Þá eru það leikir dagsins
England - Paragvæ

Enginn Rooney, Gerrard í veseni og Jermaine Jenas sást á miðri miðjunni á æfingu. Þrátt fyrir sterk nöfn má ekki mikið útaf bregða hjá Englandi. Stærsta spurningin er sú: Geta Gerrard og Lampard spilað saman á miðjunnni þannig að vel sé. Hingað til hefur svarið verið nei.
Paragvæ á ekki að vera hindrun á pappírnum. Vörnin er reynslumikil, en besti maðurinn Gamarra er 35 ára og ef Owen er frískur á hann að geta tekið Gamarra á sprettinum. Gaman að sjá í Sport blaðinu um HM að miðja Paragvæa "stundar viðskipti með lið í Bundesliga" en raunin er auðvitað sú að þeir Dos Santos og Barreto "do their business with" Bayern og Nijmegen (sem er að auki í Hollandi)
Vörn Englendinga á að vera pottþétt, jafnvel gegn Bayern framherjanum Roque Santa Cruz. Reyndar er alls óvíst hvort hann verður með vegna meiðsla í hásin.
England - Paragvæ 2-0
Lykilmenn: Lampard og Santa Cruz.
Spútnik: Kemur Walcott inn á? Næst yngstur á HM ef svo verður, Norman Whiteside mun enn eiga metið sitt óhreyft á þessari HM.

Svíþjóð - Trínídad og Tóbagó

Það verða mjög óvænt úrslit ef T&T fara heim með stig. Þeir eru komnir til að hafa gaman að þessu. Svíar eiga að vinna þennan leik, skilyrðislaust. Það eru reyndar ákveðin spurningamerki við vörnina og Isaksson markvörður er meiddur, en það er erfitt að vanmeta andlega styrkinn. Hjá Trínídad er Stern John markaskorarinn, 65 mörk í 95 landsleikjum. Það er varla hægt annað en að velta fyrir sér styrkleika andstæðinganna sem hann hefur skorað gegn.
Svíþjóð - Trínídad og Tóbagó 0-1
Lykilmenn: Ibrahimovic og John
Spútnik: Dwight Yorke. nei segi bara svona...

Argentína - Fílabeinsströndin

Mest spennandi leikur dagsins. Fyrsti leikurinn í dauðariðlinum (hverju svo sem Bandaríkjamenn halda fram) og setur tóninn fyrir þann riðil. Hér nægir að telja upp nöfn: Chelsea senterarnir Crespo og Drogba mætast, Messi er enn meiddur en gæti orðið einn af stórstjörnunum, Riquelme og Mascherano hava alla burði til að slá í gegn sem sóknar- og varnarmiðjumenn. Hálf Arsenal vörnin sem við vitum allt um er mætt á svæðið. Carlos Tévez er besti framherjinn í brasilísku deildinni þó hann hafi aðeins skorað 3 mörk í 21 landsleik og besti leikmaður Manchester United á leiktíðinni 2004-5 er stiginn upp úr meiðslum, járnkarlinn Heinze tæklar allt sem hreyfist og ljósastaura að auki ef sá gállinn er á honum. Colocchini, Sorin og Ayala eru engir aukvisar heldur. Veikustu hlekkirnir á vellinum er markvörður Fílanna, Tizié og litli vinstri bakvörðurinn Boka. Fyrsti risaleikurinn í HM. Það verður allt vitlaust...
Argentína - Fílabeinsströndin 2-1
Lykilmenn: Riquelme og Drogba
Spútnik: Tevez

Uppgjör gærdagsins

Það sem kom í ljós í gær er að Þjóðverjar eru með slaka vörn, Kosta Ríka á að tapa öllum sínum leikjum, Ekvador er ekki bara gott í 3000 metra hæð yfir sjávarmáli og að Pólverjar eru bitlausir. Þessi riðill gæti klárast á fimmtudag. Englendingar hugsa gott til glóðarinnar að lenda á móti liði úr þessum riðli.
Annars er óvíst hvort Jens Lehman verður leikfær á miðvikudag. Þá kæmi sér vel að hafa góðan varamarkmann. Hver er það aftur hjá Þjóðverjum...

föstudagur, júní 09, 2006

Geisp...

Æ þetta var slakt. Ekvador geriði akkúrat það sem þurfti, það er ekki nóg að hanga á boltanum í tíma og ótíma ef fyrsta markskotið kemur á 85. mínútu! Tvö stangarskot á síðustu tveim mínútunum voru of lítið og of seint.
Ég sagði að það yrði enginn spútnik þarna...

Nostrahver?

Ekki er ég spámannslega vaxinn. Jújú, Wanchope stóð sig áðan, en ekki Lehman og Podolski. Eusibiuz vinur bloggsins kemur inn í sóknina í staðinn fyrir Rasiak þannig að ekki verður Rasiak maðurinn. Zurawski og Delgado munu sjá um mörkin á eftir ef einhver verði. En þetta hljóta að vera betri varnir.

Varnarbrestur

Það er dagljóst að spá mín um fá mörk í þessum riðli er gjörsamlega útúr kú. Hvorugt lið er með almennilega vörn. Lehman er búinn að fá á sig tvö skot, bæði mörk.

Haka svasar

Þetta er svaka hasar, Þjóðverjarnir eru svo miklu betri, eru með baltann 59% af tímanum og eru látnir allt of mikið í friði. Ég stend mig að því að halda massíft með þeim. Alger taugaviðbrögð að fagna eins og nötter þegar klose skoraði.

Ballack með?

Ballack segist vera í góðu lagi en Klinsmann er með reglu um að leikmenn sem ekki geta æft 48 stundum fyrir leik verði ekki í liðinu. Brýtur Klinsi eigin reglu?

Dagur eitt. Púnktur.

Þetta er að byrja...
Tveir leikir í dag.
Þýskaland - Kosta Ríka

Verður þetta háðuglegasta útreið heimaliðs í háa herrans tíð, eða fer þýska stálið þetta á tradisjóninni?
Ekki spyrja heimskulega. Þegar á hólminn er komið er eini munurinn á góðu þýsku liði og slöku þýsku liði hvort þeir vinna úrslitaleikinn. Ballack verður ekki með, en þetta er kannske leikurinn þar sem hann má helst missa sín.
Kosta Ríka er ekki með neina þekkta leikmenn nema Paolo Wanchope sem er snúinn heim, en ekki orðinn þrítugur. Það verður líka að minnast á Douglas Sequeira, annan tveggja leikmanna frá konunglega liðinu í Sjávarvatnsþorpi, Real Salt Lake. Þetta verður þó einhver barningur fyrir Stálíð og niðurstaðan:
Þýskaland - Kosta Ríka 1-0
Lykilmenn: Lehman og Wanchope.
Spútnikar: Sviðið er stórt, er Podolski maðurinn?

Pólland - Ekvador

Í minningunni lifa Lato, Smolarek og Boniek en nútíminn er annar. Reyndar er núna bæði Boniek og Smolarek, en núna er Zbigniew þjálfari og í hópnum er júniorinn Eusebiuz Smolarek, alinn upp í Belgíu og ku ekki mjög pólskur í sér. Lítur ekki út fyrir að hann verði eitthvað með að ráði. Pólverjar eru því stjörnulausir og styrkurinn liðsheild, barátta og hreint kolklikkaðir stuðningsmenn sem búast má við í stórum hópum.
Ekvador ætlar líka að byggja á sterkri vörn... Já ég sagði Ekvador. Sambabolti hvað?
Jú sambabolti í hæfilegu magni. Liðið er reynslumikið, og nöfn eins og Ulises de la Crus, Augustin Delgado, Edwin Tenorio og Ivan Hutado eru kunnugleg. Liðið varð í þriðja sæti í undankeppninni, unnu bæði Argentínu og Brasilíu, en nú endar þetta.
Pólland - Ekvador 1 - 0
Lykilmenn: Rasiak og Delgado
Spútnikar: Engir.

miðvikudagur, júní 07, 2006

Niðurtalning: 57,5

HM sérritin drífur að, Moggi þéttur í morgun, kominn með fast form á öllum mótaútgáfum fótbolta og handbolta, Fréttablaðið er þynnra.
En kóngurinn er mættur! Kicker WM Sonderheft 2006 er komið í hús. Einhvers staðar á ég enn heftið frá 1978 þegar ég horfði fyrst á beinar útsendingar þegar ég var á Spáni. Það er orðið lúið, vantar ystu síður en það jafnar enginn þessa umfjöllun.
HM síða Guardian virðist ætla að massa þetta, hún er ógnvænlega umfangsmikil.
Bendi enn og aftur á tenglana hér yst, þar dettur ýmislegt inn þó ég bloggi það ekki allt beint.